Saga félagsins

Stiklað á stóru um sögu Kvenfélags Garðabæjar

Kvenfélag Garðabæjar var stofnað 8. mars 1953. Það er aðili að Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu (K.S.G.K.), Kvenfélagasambandi Íslands (KÍ) og Húsmæðrasambandi Norðurlanda.

Í félaginu eru nú skráðar nú 2021 um 145 félagskonur. Fyrsti formaður félagsins var frú Úlfhildur Kristjánsdóttir, á Dysjum. Eitt af fyrstu verkefnum félagsins var að endurreisa Garðakirkju og var hún endurvígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966. Þar unnu frumkvöðlar félagsins mikið og óeigingjarnt starf.

Tilgangur félagsins er m.a. að efla félagsstarf, að vinna að hagsmuna- og réttindamálum kvenna til aukinna framfara og menningar.

Félagið hefur staðið fyrir ýmsum námskeiðum t.d. í ræðumennsku, leiklist, tölvuvinnslu, ýmiss konar föndri svo fátt eitt sé nefnt. Á árum áður hélt félagið þorrablót í janúar sem síðustu ár hefur verið í óvissu.
Vorferð í maí er oftast farin innanlands.
Félagsfundir eru haldnir 1. þriðjudag hvers mánaðar frá okt.-maí ár hvert.
Frá upphafi hafa fundir félagsins verið haldnir á Garðaholti en félagið var rekstraraðili hússins. Haustið 1954 var fyrsta skóflustungan tekin af félagskonum að viðbyggingu Garðaholts, sem hefur verið aðstaða félagsins frá stofnun þess.
Gestafundir eru einu sinni á ári, þar sem tekið er á móti hópum annarra kvenfélaga, sem oftast eru endurgoldnar. Þessar heimsóknir gefa hugmyndir af starfsemi annarra kvenfélaga.

Merki félagsins var hannað af félagskonunni Gretu Håkansson. Fáni með merki félagsins var helgaður af séra Braga Friðrikssyni á jólafundi árið 1982.

Félagið hefur styrkt margvísleg málefni með stórum og smáum framlögum og málefni tengd Garðabæ eru félagskonum einkar hugleikin.

Aðalfjáröflun félagsins og fastur liður í 17. júní hátíðarhöldum bæjarins hátíðarkaffihlaðborði, þar sem félagskonur vinna og leggja til allt meðlæti og taka á móti allt að 700 gestum. Ýmislegt annað er gert til fjáröflunar.

Tvisvar á ári er haldin félagsvist fyrir eldri borgara bæjarins. Að sjálfsögðu bjóða félagskonur gestum sínum upp á kaffiveitingar. Þessi kvöld hafa verið vel sótt.

Fyrsta sunnudag í aðventu taka félagskonur þátt í aðventumessu í Garðasókn.

Félagið á skógarreit sem skógarnefnd félagsins sér um. Reiturinn er í Smalaholti þar sem í framtíðinni mun vaxa fagur skógur, þar eiga fleiri félagasamtök í Garðabæ ræktunarreiti. Eldri reitur félagsins lagðist af við gerð nýs Álftanesvegar er vestan Engidals. Þar hafa félagskonur komið fyrir borðum og bekkjum í lautum og er þetta því tilvalinn staður til lautaferða.

Félagið beitti sér fyrir því að skrásetja muni í eigu Garðbæinga sem vonandi eiga eftir að prýða minjasafn bæjarins þegar og ef það rís. Ekkert hefur orðið að minjasafni í Garðabæ.

Helsta markmið félagsins er þó ávallt að rækta félagsandann og samheldni meðal félagskvenna – þar liggur auður félagsins.

Allar konur búsettar í Garðabæ eru velkomnar í Kvenfélag Garðabæjar.

Scroll to Top