Lög Kvenfélags Garðabæjar
Lög Kvenfélags Garðabæjar með þeim breytingum, eins og þau voru samþykkt á s.l. aðalfundi 23. febrúar 2022.
- grein
Félagið heitir Kvenfélag Garðabæjar. Heimili þess og varnarþing er í Garðabæ.
Félagssvæðið er Garðabær. Félagið er í Kvenfélagasambandi Gullbringu og Kjósarsýslu og því aðili að Kvenfélagasambandi Íslands og Húsmæðrasambandi Norðurlanda. - grein
Tilgangur félagsins er:
1. að efla félagslegt starf meðal kvenna í Garðabæ.
2. að vinna að stefnuskrármálum Kvenfélagasambands Íslands.
3. að vinna að hagsmuna- og réttindamálum kvenna í hvers konar starfi, er horfir til framfara og aukinnar menningar. - grein
Tilgangi sínum hyggst félagið ná:
1. með fræðslu og skemmtisamkomum fyrir félagskonur og gesti þeirra
2. með því að efna til fyrirlestra og námskeiða.
3. með því að ræða á fundum sínum þau mál, er félagskonur telja félagið varða og því beri að beita sér fyrir. - grein
Rétt til inngöngu í félagið eiga allar konur, 18 ára og eldri, sem bústettar eru í Garðabæ. Heimilt er að stofna ungmeyjadeild innan félagsins. Inntökubeiðni skal bera fram á félagsfundi. Á aðalfundi fer inntaka nýrra félaga þó aðeins fram eftir stjórnarkosningu. - grein
Stjórn félagsins skipa fimm konur. Formaður er kosinn með sérstakri kosningu. Hinar stjórnarkonurnar eru kosnar án verkaskiptingar. Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn þó þannig, að annað árið gengur formaður og tvær konur úr stjórninni, en hitt árið tvær stjórnarkonur. Engin kona má gegna sama embætti innan stjórnar lengur en tvö kjörtímabil í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og skal ein þeirra vera varaformaður. Biðst stjórnarkona undan endurkosningu, skal sú beiðni hennar tekin til greina.
Varastjórn skipa tvær konur og skulu þær kosnar árlega sérstakri kosningu og taka sæti í aðalstjórn eftir atkvæðatölu.
Kosning stjórnar og varastjórnar skal vera bundin og leynileg og fara fram á aðalfundi ár hvert. Þá skulu einnig kosnir skoðunarmenn reikninga félagsins og þrjár konur í uppstillingarnefnd. Hlutverk uppstillingarnefndar er að undirbúa kosningu stjórnar, skoðunarmanna reikninga og kosningar í aðrar trúnaðarstöður fyrir félagið.Í forföllum stjórnarkvenna skal:
– Varaformaður taka við störfum formanns.
– Í forföllum varaformanns tekur ritari við störfum hans.
– Í forföllum ritara eða gjaldkera tekur meðstjórnandi við starfi þeirra. - grein
Formaður boðar til funda og setur þá. Hann ýmist stjórnar þeim sjálfur eða skipar fundarstjóra. Jafnframt er formaður málsvari félagsins út á við og ávísar reikningum til greiðslu. Gjaldkeri innheimtir tekjur félgsins, greiðir reikninga þess að tilvísun formanns og færir bók, er sýnir glöggt yfirlit yfir tekjur, gjöld og eignir félagsins. Gjaldkeri sér um varðveislu á sjóðum félagsins og ber ábyrgð á þeim, nema annað sé ákveðið með sérstökum reglum. Ritari bókar fundargerðir og annast önnur ritstörf félgagsins, sem formaður kann að fela honum. - grein
Félagsgjald greiðist fyrir 1. nóv. ár hvert. Þær félagskonur sem gert hafa full skil á félagsgjöldum sínum, teljast fullgildir félagar og hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Þær konur, sem ekki greiða árgjöld sín til félagsins í tvö ár í röð, þó að áminning hafi verið sendar til þeirra má strika út af félagaskrá. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send stjórninni. Reikningsárið er almanaksárið. - grein
Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúarmánuði ár hvert og skal boða til hans rafrænt eða bréflega með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi skal kosið í stjórn, lögð fram ársskýrsla félagsins og endurskoðaðir reikningar til samþykktar. - grein
Komi til mála að félagið verði leyst upp, getur það aðeins farið fram með þeim hætti, að haldinn verði sérstakur fundur, sem til er boðað með mánaðar fyrirvara og einungis er haldinn, til þess að ræða ákvörðun um upplausn félagsins.
Til þess að gerðir slíks fundar verði lögmætar, þurfa að sækja hann a.m.k. 2/3 hlutar fullgildra félagskvenna, en 2/3 hluti fundarkvenna þurfa að greiða atkvæði með félagsslitum, til þess að upplausnin sé lögmæt. Náist eigi saman á fund þennan tilskilinn hluti félgagskvenna, skal boða til annars fundar með viku fyrirvara. Á þeim fundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum, enda séu gerðir þess fundar lögmætar þótt enginn ákveðinn hluti félagskvenna sæki hann. - grein
Leysist félagið upp, renna skuldlausar eignir þess til líknar- eða menningarmála í bænum. - grein
Breytingartillögur á lögum skulu berast til stjórnar félagsins minnst 30 dögum fyrir aðalfund og sendar út til félaga með fundarboði aðalfundar. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu breytingatillögur hljóta 2/3 atkvæða fundarkvenna.