Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar
Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Það var enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.
Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum. Kvenfélagasamband Íslands í samstarfi við RÚV og sveitarfélögin í landinu minnir á og vekur athygli á deginum í fjölmiðlum.
Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.