Fjallkonan
Kvenfélag Garðabæjar annast hlut fjallkonu á 17. júní í Garðabæ
Frá árinu 1980 hefur Kvenfélag Garðabæjar annast hlut fjallkonu við 17. júní hátíðahöld í Garðabæ.
Í upphafi var skautbúningur leigður af Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Þetta fannst hagsýnum félagskonum of kostnaðarsamt og því kom sú hugmynd frá Lovísu Einarsdóttur og Jónu Bjarkan að félagið eignaðist skautbúning. Hófust þær stöllur strax handa við að finna búning og var ráðist í kaupin árið 1982.
Skautbúningurinn er mjög fallegur og útsaumurinn eftir Elísabetu Waage. Einnig er stokkabeltið mjög glæsilegt. Nær undantekningarlaust hefur Kvenfélagskona verið í hlutverki fjallkonunnar og flutt ljóð við hátíðahöldin.
Árið 1989 var farið að láta litla telpu færa fjallkonunni blóm. Til að byrja með var telpubúningurinn fenginn að láni, en eins metnaðarfullar og Kvenfélagskonur eru , var ekki látið þar við sitja því þáverandi formaður Kvenfélagsins, Sigurlaug Garðarsdóttir Viborg saumaði fallegan telpubúning árið 2000 og hefur hann verið notaður síðan.
Ritað af Valgerði Jónsdóttur í 50 ára afmælisrit Kvenfélags Garðabæjar 2003.