3 kjúklingabringur, beinlausar
2 msk indverskt karrímauk
200 ml sýrður rjómi (18%)
½ sítróna
250 g pastaskrúfur eða slaufur
salt
6 msk majónes
2 msk mangókryddmauk
2-3 vorlaukar, saxaðir
1 mangóaldin, þroskað
1 gul paprika
1 salathöfuð, t.d. lollo rosso eða eikarlaufssalat
1-2 msk saxað kórianderlauf

Ofninn hitaður í 200°. Karrímaukinu hrært saman við 2 msk af sýrðum rjóma og 2 tsk sítrónusafa.  Blöndunni smurt jafnt utan á kjúklingabringurnar, þær settar í eldfast fat, álpappír breiddur yfir og settar í ofninn í um 25 mínútur, eða þar til þær eru steiktar í gegn.  Teknar út og látnar kólna.

Pastað soðið í saltvatni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.  Þegar það er meyrt er því hellt í sigti og látið renna af því og síðan er það skolað í köldu vatni.  Majónesinu hrært saman við afganginn af sýrða rjómanum og mangokryddmaukið og síðan er vorlauknum hrært saman við.

Mangóið afhýtt, steinhreinsað og skorið í teninga og paprikan fræhreinsuð og skorin í mjóar ræmur.  Kaldar kjúklingabringurnar skornar í þunnar sneiðar þvert yfir.  Kjúklingi, mangó, papriku og pasta blandað saman og síðan er sósunni hellt yfir og blandað vel.

Salatblöðin skoluð, rifin niður og dreift á fat og kjúklingasalatið sett í miðjuna.  E.t.v skreytt með kóríanderlaufi eða steinselju og borið fram.