Vetrarstarfi Kvenfélags Garðabæjar veturinn 2017 – 2018 er að ljúka, það hefur verið innihaldsríkt.

Konum var boðið frá öðrum kvenfélögum á félagsfundi okkar, síðastliðið haust komu konur frá Kvenfélagi Álftaness og nýlega frá Kvenfélaginu Seltjörn á Seltjarnarnesi. Það er mikilvægt að kynnast starfsemi annarra kvenfélaga því alltaf má gera betur.

Nýtt félagatal kom út á árinu sem tekur gildi frá og með fyrsta fundi vetrarins 2. október nk. þar sem konum er skipt í sex hópa og í stafrófsröð. Fyrri félagatöl hafa verið eftir hverfum. Stjórnin vonar að nýja félagatalið gagnist konum vel.

Sumargleði félagsins tókst með afbrigðum vel, kvöldið var fjáröflunarkvöld sem ákveðið var fyrirfram að Konukot mundi njóta. Kvenfélagið er öflugt að styðja við ýmis málefni s.s. ungbarnadeild Heilsugæslu Garðabæjar og tæki til sjúkraþjálfunar á Hjúkrunarheimilið Ísafold, Ljósið endurhæfingardeild fyrir krabbameinsgreinda, MS félagið til styrktar þeim er haldnir eru MS sjúkdómnum og Fjölbrautaskóli Garðabæjar með bókagjafir. Auk þess styrkir kvenfélagið Styrktarsjóð Garðasóknar.

Kvenfélagskonur styrkja Konukot – því konur styrkja konur

Sumargleði kvenfélagsins var haldinn 12. apríl í félagsheimilinu á Garðaholti, þar sem kátar konur fylltu Garðaholtið. Sumargleðin var öllum konum opin auk þess buðu félagskonur gestum með sér, enda var fjölmennt þetta kvöld. Boðið var uppá veglega dagskrá konum til skemmtunar, Sigga Kling var veislustjóri og Þuríður Sigurðardóttir listakona söng, einnig var tískusýning og lukkuleikur með vinningum.

Konur heimsóttur Konukot - Skemmtinefnd sumargleðinnar ásamt formanni og varaformanni félagsins heimsóttu Konukot þann 30. apríl og færðu þeim Brynhildi Jensdóttur framkvæmdastjóra og Jóhönnu Þorgrímsdóttur starfsmanni veglega peningagjöf. Framkvæmdastjóri Konukots sagði fjármunina nýtta meðal annars til kaupa uppþvottavél og þurrkara, lengra voru þær ekki komnar í skipulagningu styrksins enda óvíst hvað safnaðist þegar þeim var tilkynnt um væntanlegan styrk. Kvenfélagskonum var svo boðið að skoða húsakynni Konukots. Stjórn félagsins þakkar dugnað skemmtinefndar sumargleðinnar og öllum konum sem komu á Garðaholt þetta kvöld.

Edinborgarferð

Kvenfélagkonur fóru í fjögurra daga menningarferð til Edinborgar. Um þrjátíu konur skoðuðu borgina í blíðskapar verði í byrjun maí á meðan snjóaði heima. Ferðin var skipulögð af félagskonum sem eiga þökk skilið fyrir ánægjulega borgarferð.

Skógarnefnd félagsins bíður allar félagskonur í skógarreit félagsins í Smalaholti einhvern góðviðrisdag í maí til að kveðja vetrarstarfið. Og ekki síst til að gróðursetja trjáplöntur til að vega upp á móti sótspori flugferðar félagskvenna. Á Smalaholti hafa kvenfélagskonur ræktað skóg síðan vorið 1989.

Árlegt hlaðborð kvenfélagsins 17. júní 

Vetrarstarfinu líkur með glæsilegu hlaðborði kvenfélagsins sem er fastur liður í 17. júní dagskrá bæjarbúa. Af því tilefni leggja allar konur fram heimalagað meðlæti á hlaðborðið sem svignar undan hnallþórum. Því 17. júní kaffið er stærsta fjáröflun starfseminnar. Bæjarbúar gera ráð fyrir hlaðborðinu, þar sem stórfjölskyldan mætir. Einnig leggur Kvenfélagið fram við hátíðarhöldin í Garðabæ fjallkonu sem skartar skautbúningi í eigu félagsins.

Kvenfélag Garðabæjar er 65 ára á árinu, að því tilefni er mikilvægt að líta til baka yfir blómlega starfsemi félagsins og gera sér dagamun. 

Allar konur í Garðabæ eru velkomnar í Kvenfélagið.

Sigurbjörg Helena Jónasdóttir, formaður

Erla Bil Bjarnardóttir, varaformaður